
„Alltaf glöð, kát og bjartsýn heim af IBTM í Barcelona“
IBTM Barcelona fór fram dagana 19.-21. nóvember sl. Eins og undanfarin átta ár fór vösk sveit aðildarfélaga frá Ráðstefnuborginni Reykjavík á sýninguna. Fundarsókn, þátttaka í áfangastaðakynningum og heimsóknir í íslenska básinn voru með allra besta móti. Áhuginn á áfangastaðnum, sérstaklega hvað varðar hvataferðir, alþjóðlega fundi og minni ráðstefnur, fer síst dvínandi milli ára. Eins og einn af aðildarfélögum Meet in Reykjavík hafði á orði eftir lokadaginn er ekki annað hægt en að fara glöð, kát og umfram allt bjartsýn heim af IBTM. Það á í það minnsta við um okkur sem vorum í íslenska básnum.