Young business woman

Viðskiptaferðamaður

Auglýst eftir verðmætari ferðamönnum

  • 15 May, 2019
  • Category: IS
Pistill eftir Sigurð Val Sigurðsson, markaðsstjóra Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur

Í kjölfarið á falli WOW air hefur meira borið á umræðunni um verðmæti ferðamanna en oft áður. Í umhverfi þar sem á sér stað fækkun erlendra gesta er stjórnmálamönnum og hagsmunaaðilum tíðrætt um að það sé til lítils að horfa í farþegatölur einar og sér heldur þurfi að líta til þeirra verðmæta sem þeir skilja eftir sig. Það eru hins vegar skiptar skoðanir á því hvernig við mælum verðmæti gesta. Er það mælt í krónutölum? Út frá umhverfis- og samfélagsáhrifum? Út frá ferðahegðun eða dvalarlengd? Út frá öllu ofangreindu eða einhverju allt öðru?

Þessi umræða er ein birtingarmynd þess að okkur skortir stefnu um framtíð ferðaþjónustunnar. Það er auðvelt að vera sammála því að vöxtur greinar liggi ekki í því að fjölga hér gestum langt umfram það sem nú er heldur að hámarka virði þeirra. En hvernig ætlum við að gera það? Og hvaða ferðamenn eru þetta? Það eru spurningarnar sem okkur liggur á að svara.

Svokallaðir MICE-ferðamenn eru þeir sem koma til landsins til þess að taka þátt í fundum, hvataferðum, ráðstefnum, viðburðum eða sýningum. Samkvæmt þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar á þessum hópi hér á landi og fjölda erlendra rannsókna er þetta hópur sem eyðir hærri fjárhæðum á hverja gistinótt, ferðast af ábyrgð í viðkvæmri náttúru og kemur helst utan háannatíma.

MICE-ferðamenn eru ágætt dæmi um vel skilgreindan hóp ferðamanna sem er til þess fallinn að ýta undir frekari verðamætasköpun í greininni. Hér á landi höfum við byggt upp reynslu og þekkingu í að þjónusta þennan sértæka hóp erlendra gesta. Við höfum framúrskarandi innviði og vöru sem er eftirsótt vegna sérkenna íslenskrar menningar, náttúru og hugarfars. Við höfum líka tækifæri til þess að vaxa og getum nýtt þá innviði sem þegar hefur verið fjárfest í betur en nú er gert.

Markaðssetning áfangastaða er, rétt eins og mikið af náttúru landsins, almannagæði. Það er ekki hægt að koma í veg fyrir að ákveðnir aðilar njóti góðs af vel heppnaðri markaðssetningu þó þeir hafi ekki greitt fyrir hana. Eins er ekki hægt að koma í veg fyrir að fólk sem ferðast um landið njóti fegurðar íslenskrar náttúru þó það leggi lítið af mörkum til að varðveita hana. Þetta framkallar ákveðinn laumufarþegavanda (e. free-rider problem) sem reynist oft illleysanlegt án aðkomu hins opinbera. Ríkið hefur þarna ákveðnu hlutverki að gegna, rétt eins og það hefur hlutverki að gegna við verndun náttúrunnar. Ríkið hefur, oft myndarlega, komið að markaðssetningu Íslands sem áfangastaðar fyrir ferðamenn. Nú er þörf á því að ríkið hvetji til aukinnar verðmætasköpunar í ferðaþjónustunni, til dæmis með því að styðja við virðisaukandi markaðsstarf. Aukin áhersla á markaðssetningu MICE-ferðaþjónustu væri einn liður í því.

Share this article:

MORE ARTICLES YOU MIGHT LIKE 

Þrír „Ambassadorar“ heiðraðir (myndband)

Þann 5. september 2019 stóðu Ráðstefnuborgin Reykjavík og Samtök ferðaþjónustunnar fyrir fundi um vöxt, tækifæri og leitni (e. trend) í ráðstefnu-, viðburða- og hvataferðaþjónustu á Íslandi undir yfirskriftinni Áfram MICE-Land. Á þriðja hundrað manns sóttu fundinn sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica. Á fundinum voru þrír samstarfsaðilar (Ambassadorar) Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur heiðraðir fyrir að hafa…

  • 30 September, 2019
  • Category: IS

Dr. Rob Davidson segir árangur Reykjavíkur enga tilviljun (myndband)

Dr. Rob Davidson flutti aðalerindið á fundinum Áfram MICE-Land sem haldinn var í samstarfi Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur og SAF nýverið. Dr. Davidson hefur undanfarin 20 ár stundað rannsóknir og kennslu, samhliða ráðgjafastörfum, bókar- og greinaskrifum á þróun og leitni í viðskiptaferðaþjónustu. Í erindi sínu fjallaði Dr. Davidson um víðtæk efnahagsleg og félagsleg áhrif MICE-ferðaþjónustu og tók…

  • 30 September, 2019
  • Category: IS

Áfram MICE-Land myndir

Ljósmyndari á vegum Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur fangaði stemmninguna á fundinum Áfram MICE-Land og á vinnustofu sem haldin var fyrir aðildarfélaga MiR fyrir fundinn á Hilton. Hægt er að nálgast nokkrar svipmyndir hér.

  • 30 September, 2019
  • Category: IS
 

Are you interested in Reykjavik?

Send enquiry