
Förum öll vel undirbúin „saman í sókn“!
Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hér hvað heimsfaraldur COVID-19 setur okkur sem störfum í ferðaþjónustu á Íslandi í erfiða stöðu. Starfsmenn margra fyrirtækja róa nú lífróður við að trygga rekstrarhæfi þeirra þegar ástandinu lýkur. Við sem störfum í funda-, hvataferða, ráðstefnu- viðburðaferðaþjónustu (MICE) förum ekki varhluta af alvarleika ástandsins og sjáum vel að það er öll virðiskeðjan undir. Það er þó ánægjulegt að finna kraftinn og áræðnina meðal okkar félaga. Það eru allir staðráðnir í því að vernda þá gríðarlega verðmætu reynslu, öflugt tengslanet og þá faglegu þekkingu sem orðið hefur til hér á landi á undanförnum árum.
Staðan er þó vissulega flókin. Ráðstefnuborgin Reykjavík (Meet in Reykjavík) hefur síðustu vikur safnað saman upplýsingum um afbókanir vegna COVID-19 hjá aðildarfélögum sínum og það ætti að vera öllum ljóst nú þegar að tjónið orðið gríðarlegt. Árið 2020 stefndi í að verða það farsælasta í sögu MICE ferðaþjónustu á Íslandi. Ljósið í myrkrinu er þó að meirihluti MICE kaupenda eru enn sem komið er að taka ákvörðun um að fresta verkefnum frekar en að afbóka. Tilkynning um stöðuna var send á fjölmiðla fyrir helgi og má sjá umfjöllun um hana hér.
Starfsemi Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur hefur síðustu vikur snúist um að safna saman upplýsingum, halda hagsmunaaðilum; innlendum og erlendum, upplýstum um stöðu greinarinnar. Félagið hefur jafnframt nýtt tímann í að setja aukinn kraft í umsóknir um ráðstefnur og viðburði sem er áætlað að fari fram eftir 1-4 ár samhliða því að undirbúa jarðveginn þegar markaðir fara að opnast að nýju. Á næstu dögum hefst undirbúningsvinna við markaðsátakið „Saman í sókn“ fyrir áfangastaðinn Ísland. Ráðstefnuborgin Reykjavík ber miklar væntingar til verkefnisins og náins samstarf við stjórnvöld, Íslandsstofu, SAF, Reykjavíkurborg og alla sem að verkefninu og framkvæmd þess koma.
Baráttukveðjur
Meet in Reykjavík