
Reykjavík er sjötta sjálfbærasta ráðstefnuborg í heimi
Sjálfbærnilisti Global Destination Sustainability Index (GDS-Index) fyrir árið 2019 hefur verið opinberaður og er Reykjavík í 6. sæti listans. GDS-Index leggur mat á samfélagslega og umhverfislega sjálfbærni 50 af helstu ráðstefnu- og hvataferðaborgum í heiminum og hversu vel þeim gengur að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.
Sigurjóna Sverrisdóttir, framkvæmdastjóri Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur, segist hæstánægð með þann árangur sem hefur náðst í að auka sjálfbærni áfangastaðarins. Enn sé þó svigrúm til að gera betur: „Þó að okkur hafi gengið vel að innleiða okkar stefnu á undanförnum árum og náð okkar helstu markmiðum í sjálfbærni er enn mikið svigrúm til þess að gera betur. Við ætlum að herða róðurinn og treystum á stuðning og samstarfsvilja ríkis, borgar og annarra samstarfsaðila. Við höfum öll tækifæri til þess að vera fremst í heiminum í sjálfbærri þróun og eigum að hafa metnað til þess að leiða lista eins og þennan. Við ætlum að stefna að því.“
Vísitalan skoðar meðal annars umhverfisvottanir og sjálfbærnistefnu borganna sjálfra og fyrirtækja sem þjónusta ráðstefnu-, viðskipta- og hvataferðagesti (í tilfelli Reykjavíkur eru aðildarfélagar Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur metnir). Horft er til orkugjafa, umfangs endurvinnslu, matarsóunar, kolefnisbindingar, jafnréttis- og friðarmála, og upplýsingamiðlunar til kaupenda og hagsmunaaðila svo fátt eitt sé nefnt.