
Reykjavík verðlaunuð á Eventex Awards 2019
Reykjavík var valin besta viðburðaborg Evrópu (Best Event Destination in Europe) þegar Eventex Awards voru veitt í níunda sinn í síðasta mánuði. Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á bæði fyrirtækjum og áfangastöðum sem veita framúrskarandi þjónustu og upplifun þegar kemur að hvers kyns viðburðahaldi.
Verðlaunahátíðin er óhefðbundin en hún fór fram í beinni útsendingu á vef verðlaunanna. Samkvæmt forsvarsmönnum hátíðarinnar er fyrst og fremst verið að veita þeim verðlaun sem kunna að og geta farið „út fyrir kassann“ í viðburðahaldi og að hátíðin sjálf endurspegli það hugarfar. Það er 52 manna alþjóðleg dómefnd sem velur sigurvegara en hún er skipuð fólki sem starfar við viðburðahald og markaðssetningu áfangastaða eða ritstýrir fjölmiðlum sem fjalla um viðskiptaferðaþjónustu.
Þorsteinn Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur, segir verðlaun eins og þessi hafa mikla þýðingu fyrir áfangastaði eins og Reykjavík sem er kannski ekki mjög þekkt sem viðburðaborg í samanburði við stórborgir Evrópu. „Valið á Reykjavík sem besta viðburðaborg Evrópu 2019 hefur þegar vakið athygli innan þessa viðburðageira og mjög ánægjulegt að þau koma beint í kjölfarið á því að tilkynnt er um val European Film Academy á Reykjavík fyrir verðlaunahátíðina þeirra 2020. Þessi viðurkenning mun gagnast okkur við kynningu á áfangastaðnum næstu misserin og árin og er staðfesting á samkeppnishæfni áfangastaðarins þegar kemur að því að sækjast eftir eftirsóttum verkefnum.“